Skip to Content

Rás - Hafnarborg, eftir Helgu Þórsdóttur

Sólveig Aðalsteinsdóttir er fædd árið 1955. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og síðan lá leiðin til New York í framhaldsnám, fyrst við New York Feminist Art Institute en síðar tók hún þátt í sjálfstæðu vinnustofuverkefni á vegum Whitney Museum of American Art. Sólveig stundaði einnig nám í Hollandi, við Jan van Eyck Academie í Maastricht.
Sólveig á að baki 15 einkasýningar og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga innanlands og utan. Verk hennar í opinberri eigu eru ófá og er nærtækast að minna á verk hennar Streymi tímans sem afhjúpað var vorið 2012 í Öskjuhlíðinni í Reykjavík.
Viðfangsefni hennar hvelfast oft um tímann sem grefur sig áfram, úr fortíð inn að líðandi stundu og áleiðis til framtíðar. Þannig heldur efnið sjálft áfram að vinna í verkum Sólveigar löngu eftir að hún hefur látið þau frá sér og þau eru því síbreytileg á hverju andartaki um sig.
Gott dæmi um myndlist Sólveigar er teiknisería unnin á Akranesi fyrir sýninguna Ver. Þar hefur listamaðurinn fangað hughrif bæjarmyndarinnar, sem felur í sér fortíð bæjarins, nútíð og framtíð. Valdar byggingar voru mældar upp, alveg nákvæmlega, myndirnar eru unnar á sinkgrunnaðan pappír, teiknaðar með silfri. Formin bera með sér upprunann sem tengist handriti bæjarbragsins; tími staðarins; fólkið sem var en skildi eftir sig heimili, lifnaðarhætti, án þess að gera ráð fyrir vörpun á eigin sjálfi áfram inn í sköpun framtíðar. Með tímanum taka verk Sólveigar líka breytingum þegar fellur á silfrið. Þannig umbreytist myndverkið um rákina af tímanum uppi á Akranesi efnislega í gegnum árin, rétt eins og fyrirmyndir þess.
Sólveig vinnur hér á Rás með barnsminnið. Tæknin sem notuð er við vinnslu myndverkanna tengist jafnframt framgangi tímans frá einu augnabliki til annars. Verkin eru unnin með frumstæðri ljósmyndatækni, þar sem filmu er komið fyrir innan í myrkvuðum dósum með götum. Ljósið brennir sig í gegnum götin inn í silfrið, ferlið er bæði efnafræðilegt og bundið í tíma.
Sólveig kemur dósunum fyrir í augnhæð um það bil fimm ára barns. Ljósið smýgur inn í dósirnar og smám saman myndast form æskuheimilisins á filmuna. Þannig stjórnar listamaðurinn ekki formi myndanna nákvæmlega frekar en eigin minni um barnæskuna.
Í raun er hér um að ræða tímavél. Ljósmyndaverkið er gert árið 2014 en sýnir og staðfestir líf og tilveru fjölskyldu árið 1960. Framlag Sólveigar til Rásar vekur hugrenningartengsl við texta Rolands Barthes frá 1980, La Chambre claire, sem er þekkt undir titlinum Camera Lucida á Íslandi úr enskri þýðingu.
Barthes skrifaði bókina eftir að hann missti móður sína. Sorgin knýr Barthes til að skoða gamlar ljósmyndir af móðurinni í þeirri von að endurlifa jarðlega tilvist, fanga einhverja staðfestingu á að Henriette Barthes hafi sannarlega „verið“ í þessum heimi. Á meðal ljósmynda af hinni heittelskuðu móður finnur Barthes mynd sem hann kallar Vetrargarðinn. Myndin sýnir tvö börn í gróðurhúsi, Henríettu 5 ára og 7 ára gamlan bróður hennar. Gróðurhús heitir á frönsku jardin d’hiver eða vetrargarður.
Barthes segir myndina hafi vakið upp hjá sér útópíu sem einungis verði lýst sem „hinni ómögulegu vitneskju um hina einstöku veru“ vegna þess að ljósmyndin miðlar „sannleikanum“ um hina einstöku veru. Þannig staðfestir myndin sanna jarðlega veru móðurinnar fyrir Barthes, en um leið dauðleika hennar.
Myndverk Sólveigar kallast á við stefið í texta Barthes: Líf og dauði, það að vera „sannarlega“ eða ekki. Barthes segir að ljósmyndin sé leikhús þar sem sá sem myndaður er stilli sér upp og slíti sig frá raunveruleikanum. Markmiðið er að varpa inn í framtíðina sjálfinu í formi hinnar einstöku veru en gangast um leið við eigin dauðleika. Út frá Barthes er í rauninni hægt að líta svo á að ljósmyndin sé sannari en hin eiginlega dauðlega vera.
Sólveig hverfur til baka, þrýstir eigin hugveru inn að sýn fimm ára barns. Leikur, setur á svið löngu liðinn tíma sem hún sjálf lifði með eigin líkama. Inntak verkanna er afar persónulegt þar sem myndirnar verða sannarlega til inni á æskuheimili listamannsins. Um leið miðlar Sólveig algildum sannleik um líðandina frá einu andartaki til annars. Með öðrum orðum fjalla verkin um persónulega úrvinnslu minninga í mannlegri vitund, sköpunarferli í tímanum sem takmarkast af dauðleika mannsins.